expr:class='"loading" + data:blog.mobileClass'>

Friday, August 5, 2016

Sítrónuskyrkaka með piparkökum

Sítrónuskyrkaka með piparkökum


Botn:
230 g piparkökur
130 g smjör

Skyrkaka:500 g Skyr.is með sítrónu
¼ l rjómi
1 tsk sítrónudropar
2 msk flórsykur

Toppur:
Rjómi
Hakkaðar piparkökur

Aðferð:
1. Setjið piparkökurnar í matvinnsluvél og hakkið þar til kökurnar eru orðnar fínmalaðar.
2. Bræðið smjör og hellið því saman við og hrærið vel.
3. Hellið kökublöndunni í hringlaga form um 22 cm að stærð og þrýstið vel niður í botninn og upp á hliðar formsins. Gott er að nota botninn á glasi til þess að þrýsta kexinu vel niður.
4. Setjið formið inn í ísskáp á meðan þið undirbúið skyrkökuna.
5. Þeytið rjóma og hrærið honum saman við skyrið þar til allt hefur blandast vel saman ásamt sítrónudropum og flórsykri.
6. Hellið skyrblöndunni  í formið og sléttið út með sleif.
7. Skreytið með hökkuðum piparkökum og rjóma að vild.
8. Geymið í kæli þar til kakan er borin fram. 

Uppskriftina er einnig hægt að finna á vef Gott í matinn.

Kveðja, Thelma

PiparmyntuskyrkakaPiparmyntuskyrkaka


Botn:
24 stk Oreo kexkökur
130 g smjör

Skyrkaka:
500 g hreint skyr
¼ l rjómi
2 msk flórsykur
200 g Pipp með piparmyntufyllingu
4 msk rjómi
1 tsk piparmyntudropar

Toppur:
100 g Pipp með piparmyntufyllingu
4 msk rjómi

Aðferð:
1. Setjið kexið í matvinnsluvél og hakkið þar til kexið er orðið fínmalað.
2. Bræðið smjör og hellið því saman við kexið og hrærið vel saman.
3. Hellið kexblöndunni í hringlaga form um 22 cm að stærð og þrýstið henni vel niður í botninn og upp á hliðar formsins. Gott er að nota botninn á glasi til þess að þrýsta kexinu vel niður.
4. Setjið formið inn í ísskáp á meðan þið undirbúið skyrkökuna.
5. Bræðið Pipp með piparmyntufyllingu yfir vatnsbaði ásamt 4 msk af rjóma. Hrærið þar til súkkulaðið hefur náð að bráðna alveg. Kælið súkkulaðið örlítið og blandið því svo saman við skyrið og hrærið þar til allt hefur blandast vel saman.
6. Þeytið rjóma og blandið honum saman við skyrblönduna ásamt flórsykri og piparmyntudropum.
7. Hrærið skyrblönduna vel saman og hellið henni í formið og sléttið út með sleif.
8. Bræðið Pipp með piparmyntufyllingu ásamt  4 msk af rjóma yfir vatnsbaði og hrærið þar til súkkulaðið hefur bráðnað alveg. Slettið súkkulaðinu óreglulega yfir kökuna.
9. Geymið kökuna í kæli þar til hún er borin fram. 

Einnig er hægt að nálgast uppskriftina á vef Gott í matinn.

Kveðja, Thelma

Ostamús með hnetusmjöri, rjóma og salthnetumOstamús með hnetusmjöri, rjóma og salthnetum


Fyrir ca. 6

Innihald
230 g rjómaostur
250 g hnetusmjör
½ tsk salt
250 ml rjómi

Toppur
½ lítri rjómi
salthnetur
súkkulaðispænir

Aðferð
Þeytið rjómaostinn þar til hann verður sléttur og  mjúkur, bætið hnetusmjörinu saman við ásamt saltinu og hrærið vel. Þeytið rjóma þar til hann verður stífur og stendur. Blandið rjómaostablöndunni varlega saman við rjómann og hrærið með sleif þar til allt hefur blandast vel saman. Sprautið ostamúsinni í hvert glas eða krukku fyrir sig kælið í 1-2 klst. Þeytið rjóma og sprautið honum ofan á ostamúsina og skreytið með súkkulaðispónum og salthnetum.

Einnig er hægt að nálgast uppskriftina á vef Gott í matinn og hægt að margfalda að vild. 

Oreo ostakakaOreo ostakaka


Botn
220 g hafrakex
50 g púðursykur
100 g smjör, bráðið

Ostakaka
5 dl rjómi
450 g rjómaostur
150 g sykur
½ tsk salt
1 msk sítrónusafi
2 tsk vanillusykur
16 stk Oreo kex
Toppur
½ lítri rjómi
3 stk Oreo kex (3-4 stk) 

Aðferð
Setjið smjörpappír í hringlaga form u.þ.b. 23 cm stórt. Setjið hafrakex og púðursykur saman í matvinnsluvél og fínmalið. Bræðið smjör, blandið því saman við og hrærið vel. Setjið hafrakexblönduna ofan í formið og þrýstið vel ofan í botninn og upp á hliðar formsins. Gott er að nota glas eða skeið. Setjið í kæli á meðan þið undirbúið rjómaostablönduna.  

Hrærið rjómaost, sykur, salt, sítrónusafa og vanillusykur saman í skál þar til blandan verður slétt og mjúk og setjið til hliðar. Þeytið rjómann þar til hann verður stífur og stendur. Blandið rjómanum varlega saman við rjómaostablönduna með sleif. Setjið Oreo kexið í matvinnsluvél, hakkið gróflega og blandið varlega saman við rjómaostablönduna. Hellið rjómaostablöndunni ofan í formið og kælið í 5 klukkustundir. Þeytið rjóma og sprautið honum ofan á kökuna og skreytið með Oreo kexi. Geymið í kæli þar til kakan er borin fram. 

Einnig er hægt að nálgast uppskriftina á vef Gott í matinn.

Kveðja, Thelma

Jarðarberjaostakaka sem ekki þarf að baka

Jarðarberjaostakaka sem ekki þarf að bakaInnihald
160 g hafrakex
60 g smjör, bráðið
200 g jarðarber
160 g sykur
1 stk límóna, safi og börkur
250 g marscarpone ostur við stofuhita
300 g rjómaostur við stofuhita
400 ml rjómi

Skraut
250 g jarðarber

Aðferð
Hakkið hafrakexið í matvinnsluvél, bræðið smjörið og hellið saman við hafrakexið. Þrýstið hafrakexblöndunni ofan í hringlaga meðalstór form og aðeins upp á hliðarnar. Setjið formið í frysti á meðan þið undirbúið ostakökuna. Maukið jarðaber, límónusafa og límónubörk saman í matvinnsluvél. Hrærið ostana saman þar til þeir eru orðnir mjúkir og sléttir, bætið rjómanum saman við og hrærið saman. Bætið jarðarberjamaukinu saman við og hrærið þar til allt hefur blandast vel saman. Hellið ostablöndunni í yfir hafrakexbotninn og dreifið vel úr. Setjið plastfilmu yfir og frystið í klukkustund. Takið kökuna úr frystinum 20  mínútum áður en hún er borin fram. Skreytið með jarðarberjum.

Einnig er hægt að nálgast uppskriftina á vef Gott í matinn og margfalda hana þar að vild. 

Kveðja, Thelma

Jarðarberja ostamús með rjóma


Jarðarberja ostamús með rjóma


Fyrir ca. 6 

Botn
120 g hafrakex, hakkað
30 g smjör, bráðið
1 msk sykur

Ostamús
200 g frosin jarðaber, afþýdd
2 dl rjómi
2 msk flórsykur
230 g rjómaostur
40 g flórsykur
1 tsk vanilludropar

Toppur
100 g dökkt súkkulaði
4 msk rjómi
2 msk síróp
½ lítri rjómi
jarðarber

Aðferð
Botn
Setjið hafrakex í matvinnsluvél og hakkið gróflega. Bræðið smjör, hellið yfir hafrakexið og hrærið vel. Bætið sykri saman við og hrærið. Setjið 1-2 msk af hafrakexi í hvert glas eða krukku fyrir sig og setjið til hliðar.

Ostamús
Afþýðið 200 g frosin jarðarber og setjið þau í matvinnsluvél og hrærið þar til berin eru orðin að vökva. Þeytið rjóma ásamt 2 msk af flórsykri þar til rjóminn er orðinn stífur og stendur og setjið til hliðar. Þeytið rjómaostinn þar til hann er orðinn mjúkur og sléttur, bætið flórsykri og vanilludropum saman við og hrærið þar til allt hefur blandast vel saman. Bætið því næst jarðarberjunum saman við og hrærið. Blandið rjómanum varlega saman við rjómaostablönduna og hrærið varlega með sleif þar til allt hefur náð að blandast vel saman. Setjið ostamúsina í poka og sprautið henni í hvert glas fyrir sig eða notið matskeið. Setjið í kæli.

Toppur
Bræðið dökkt súkkulaði yfir vatnsbaði. Fyrir þá sem vilja skreyta með súkkulaðihjúpuðum jarðarberjum er gott að dýfa jarðarberjunum ofan í súkkulaðið áður en rjómanum og sírópinu er blandað saman við súkkulaðið. Þegar búið er að dýfa jarðarberjunum ofan í er gott að setja þau inn í kæli og láta súkkulaðið storkna. Setjið því næst 4 msk rjóma og 2 msk síróp saman við súkkulaðið og hrærið vel. Setjið 1 msk af súkkulaði yfir hverja ostamús. Þeytið rjóma og skreytið hverja mús með rjóma og súkkulaðihjúpuðum jarðarberjum. Geymist í kæli þar til borið er fram.

Einnig er hægt að nálgast uppskriftina á vef Gott í matinn þar sem hægt er að magfalda hana að vild. 

Kveðja, ThelmaJarðarber og Oreo - skyreftirréttur

Jarðarber og Oreo


Innihald
1 pk Oreo kex (15 stk)
¼ lítri rjómi
500 g jarðarberjaskyr
200 g jarðarber

Toppur
¼ lítri rjómi
Oreo kex

Aðferð
Setjið Oreo kexið í matvinnsluvél og hakkið gróflega. Setjið 2 msk af Oreo kexi í hvert glas fyrir sig. Þeytið ¼ lítra rjóma og hrærið saman við jarðaberjaskyrið. Grófsaxið jarðarberin og blandið þeim varlega saman við. Setjið skyrið í sprautupoka og sprautið því jafnt í glösin. Þeytið restina af rjómanum eða ¼ lítra og sprautið honum ofan í hvert glas og skreytið með hálfri Oreo kexköku. Geymið í kæli þar til borið er fram. 

Einnig er hægt að nálgast uppskriftia á vef Gott í matinn þar sem þið getið margfaldað hana að vild. 

Kveðja, Thelma